top of page
Um miðja nótt, um mitt árið 2021, tók ég mynd inni í eldhúsi heima hjá mér. Ljósin voru slökkt og myrkrið mínusaði rýmið inni úr myndinni, en útsýnið út um gluggann fékk að halda sínum skýrleika. Nágrannahús, fjall og himininn. Ég fékk samstundis þörf til þess að teikna þessar aðstæður. Ferskt myrkur og tímaleysi höfðu einkennt mánuðina á undan. Ég hafði ekki sofið heila nótt síðastliðið ár, andvaka á hverri nóttu, föst í limbói skynjunar. Skynfærin vöknuðu nefnilega á kvöldin þegar ég lagðist á koddann. Þau leituðu í uppruna hvers einasta hljóðs sem rataði til þeirra. Ég byrjaði á því að teikna myrkrið innivið. Óræðan skuggann sem fyllti eldhúsið sem ég hafði svo oft staðið inni í um miðja nótt, í leit að þreytunni. Þegar að því kom að teikna útsýnið út um gluggann, fannst mér of hlýlegt, of eðlilegt, að sýna nágrannahúsin og fjallið. Ég leitaði leiða til þess að gera tímaleysinu betur skil. Tveimur árum áður hafði ég eytt sumrinu í Kína og tekið ýmsar myndir en margar voru af sólinni. Hún lítur öðruvísi út þar, mengunin þykkir himininn og sólin sýgur ofan í rúmið eins og eldur að drukkna í vatni. Þessa sól staðsetti ég fyrir utan eldhúsgluggann minn. Sólin í Kína fyrir utan heimili mitt í Laugardalnum. Sól um miðja nótt. Sól sem gæti verið tungl. Þú ert hvergi en allsstaðar, þú ert til en á sama tíma ekki.
bottom of page